Saga hússins

Húsið að Aðalgötu 16 var byggt á árunum 1887-1890 af Vigfúsi Guðmundssyni Melsteð. Lóðin var útmæld árið 1887 og efniviður keyptur og smíði hafin, en ekki var húsið fullsmíðað fyrr en árið 1890. Meðan húsið var í smíðum var það notað sem geymsla, en þar voru einnig haldnar skemmtanir og leikhús. 

Jóhannes Ólafsson keypti húsið af Vigfúsi og flutti inn í það nýbyggt. Jóhannes var einn af fjórum sýslumönnum sem bjuggu í húsinu, en hinir voru Eggert Ó. Briem, Guðmundur Björnsson og Páll Friðrik Vídalín Bjarnason. Á þeim tíma sem sýslumennirnir bjuggu í húsinu var það jafnan kallað Sýslumannshús. Um tíma var fangageymsla í húsinu, en hún var staðsett í kjallaranum í litlu herbergi í suðausturhorninu.

Árið 1912 keypti Jörgen Frank Michelsen úrsmiður húsið. Frank breytti húsinu og kom fyrir úrsmíðaverkstæði og versluninni Sápuhúsinu.  Eftir að Frank Michelsen keypti húsið var það jafnan nefnt eftir honum og kallað Michelsenhús, en húsið hét formlega Laufás, eftir prestsetri í Eyjafirði, þar sem Guðrún kona Franks hafði verið um skeið.

Úrsmíðaverkstæðið stofnaði Frank árið 1909 á Sauðárkróki og rak hann það lengst af í Michelsenhúsi. Er það enn starfrækt af afkomendum hans í Reykjavík og er elsta úrsmíðaverkstæði á landinu.

Þegar Michelsenfjölskyldan flutti frá Sauðárkróki árið 1945 keypti Gunnþórunn Sveinsdóttir frá Mælifellsá húsið og stundaði þar verslun. Hún og sonur hennar Hjörtur Laxdal, byggðu litla viðbyggingu við húsið í norður. Auk verslunar Gunnþórunnar var sonur hennar, Hjörtur með rakarastofu í húsinu.  Gunnþórunn var listræn og skreytti hurðir og veggi með myndum sínum

Árið 1952 keypti Kaupfélag Skagfirðinga suðurhluta hússins og um svipað leyti keypti Jóhanna Blöndal norðurhlutann og hafði verslun þar, en Gunnþórunn flutti úr því árið 1953. KS opnaði byggingarvörudeild í suðurhlutanum þann 4. apríl árið 1957. Um miðjan 7. áratuginn hætti Jóhanna að versla í húsinu og seldi kaupfélaginu sinn hlut. Um svipað leyti lét kaupfélagið byggja viðbyggingu í austur.  Hefur viðbyggingin þessi verið viðbót við verslunina, sem og vörugeymsla.

Um það leyti er Skagfirðingabúð var opnuð, árið 1983, flutti Byggingavöruverslun úr húsinu en Rafmagnsverkstæði KS kom í staðinn og var um tíma með starfsemi í austurviðbyggingunni. Einnig var viðbyggingin notuð undir verklega kennslu í FNV.  

Um tíma var húsið autt og notað undir geymslu en árið 1991 opnaði Bjarni Magnússon knattborðstofu (Billjardstofan) í austurviðbyggingunni og var hún starfrækt í u.þ.b. ár.

Vorið 1994 hófu María Björk Ingvadóttir og Ómar Bragi Stefánsson veitingarrekstur í húsinu og stofnuðu kaffihúsið Kaffi Krók. Hófst þá veitingarekstrarsaga hússins. Frá þeim tíma hefur húsið starfað undir nafninu Kaffi Krókur og þróast úr kaffihúsi í veitingarhús. Í fyrstu var ekki leyfi veitt fyrir skemmtunum í austurbyggingunni en það breyttist árið 1995 og um tíma voru þar böll, tónleikar, danskennsla, fundarhöld, jólahlaðborð, árshátíðir o.fl.

Sorin Lazar og Steina Margrét Finnsdóttir tóku við rekstrinum af Maríu Björk og Ómari Braga sumarið 2000. Á haustmánuðum 2001 keyptu Jón Daníel Jónsson og Alda Kristinsdóttir staðinn en þau lögðu aukna áherslu á uppbyggingu veitingastaðar.
Aðfaranótt 18.janúar 2008 kom upp eldur í húsinu og var það rifið í kjölfarið. Stuttu síðar keyptu Kristín Magnúsdóttir og Sigurpáll Aðalsteinsson húsið og létu endurbyggja það. Var húsið opnað að nýju sem Kaffi Krókur þann 17.júní 2009.

Tómas Árdal og Selma Hjörvarsdóttir keyptu svo húsið af Kristínu og Sigurpáli í lok árs 2015 ásamt fleiri eignum.  Haustið 2016 var rekstur veitingastaðarins Ólafshúss svo færður yfir götuna og rekinn undir nafni Kaffi Króks sem breyttist síðan í  KK Restaurant með breyttum áherslum rekstrarins í húsinu.